Skólaselsfréttir 2 – 2018

[23. 8. 2018. Þessi póstur er sendur á alla sem eru skráðir með netföng sem aðstandendur barna í Skólaseli]

Góðan dag.
Ég biðst afsökunar á að vera að þreyta ykkur aftur með pósti, en það er í mörg horn að líta í upphafi skólaárs og mikið af upplýsingum sem þarf að koma á framfæri og óska eftir, eftir atvikum. Gegn eðli mínu skal ég reyna að vera stuttorð 🙂

1) Foreldraviðtöl
Þeir foreldrar/aðstandendur nemenda í 1. bekk sem óska þess að koma í stutt foreldraviðtöl eru beðnir um að láta mig vita með því að svara póstinum. Það er val foreldra/aðstandenda hvort þeir óski slíks viðtal, en þá gefst bæði tækifæri til að fræðast um starfið í Skólaseli, skoða aðtöðuna og ræða þarfir barnsins. Viðtölin fara fram í Bungubrekku vikurnar 3.-7. og 17.-21. september.
Teljir foreldrar/aðstandendur þörf á samtali fyrir þann tíma er velkomið að hafa samband.
Stefnt er á að bjóða foreldrum/aðstandendum allra barna í Skólaseli sambærilegt viðtal öðrum megin við jól, og verður það auglýst síðar.
Rétt er að ítreka að foreldrum/aðstandendum er velkomið að hafa samband hvenær sem er til að ræða málefni síns barns.

2) Skólabíll
Foreldrar/aðstandendur barna sem nota þjónustu skólabílsins kl. 13.20 eða 15.20 eru beðnir um að senda upplýsingar á skolasel@hveragerdi.is um hvenær barnið tekur bílinn, hafi þeir ekki gert það nú þegar.

3) Labba/hjóla
Foreldrar/aðstandendur barna sem mega alla jafna ganga eða hjóla sjálf heim eru beðnir um að senda upplýsingar á skolasel@hveragerdi.is með þeim upplýsingum, hafi þeir ekki gert það nú þegar.

4) Klúbbastarf
Hanna Björg Gunnarsdóttir, nemi í tómstunda- og félagsmálafræði, mun sjá um klúbbastarf í Skólaseli tvo daga í viku í vetur.
Fyrirkomulagið verður þannig að klúbbar eru keyrðir í þrjár vikur í senn, einu sinni í viku, og geta börnin valið einn af fjórum klúbbum hverju sinni. Fyrstu þrjár vikurnar verða klúbbar fyrir 1. bekk, næstu þrjár fyrir 2. bekk, og loks fyrir 3. og 4. bekk. Börnin skrá sig sjálf í klúbba og miðvikudaginn 29. ágúst verður Hanna Björg með kynningu á klúbbunum fyrir börnin og hjálpar 1. bekk að skrá sig í fyrstu lotu.
Klúbbastarf er þematengt með stígandi og eins og fyrr segir er hægt að velja einn af fjórum klúbbum hverju sinni. Nánari upplýsingar um klúbbastarfið verða á vefsíðu Bungubrekku.

5) Vefsíða Bungubrekku
Opnuð hefur verið sameiginleg vefsíða fyrir alla frístundastarfsemi í Bungubrekku: http://bungubrekka.hveragerdi.is/
Þar verða settar inn upplýsingar og tilkynningar um starfið, auk þess sem eyðublöð og handbækur verða aðgengilegar þar. Vefsíðan leysir af hólmi Facebook-hópa og við hvetjum ykkur til að kíkja reglulega á hana. Eins eru allar tillögur um efni og úrbætur velkomnar.
Sérstaklega er þeim sem eru nýbúnir að skrá sín börn, bent á að á vefsíðunni er að finna síðasta upplýsingapóst frá Skólaseli.

6) Fylgd úr Grunnskólanum
Eins og þið ef til vill vitið er nú verið að prófa að stuðningsfulltrúar úr yngstu bekkjunum fylgi sínum bekkjum yfir í Skólaselið að loknum skóladegi. Starfsfólk Skólasels hleypur undir bagga þegar þarf, en sér þá ekki lengur um sérstaka gangbrautagæslu fyrir 1. bekk.

Bestu kveðjur,
Elín.

Í tengdum fréttum:

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *