Skólaselsfréttir 1 – 2018

21. ágúst 2018
[Þessi póstur er sendur á alla sem eru skráðir með netfangi sem aðstandendur barna í Skólaseli.]

Góðan dag.

Á morgun hefst skólastarf af fullum krafti í Grunnskólanum í Hveragerði. Á sama tíma fer opnunartími Skólasels í hefðbundið form, þ.e.a.s. frá því að skóladegi lýkur og til kl. 17.00.

Í þessum pósti eru helstu upplýsingar sem gott er að hafa í huga við upphaf frístundastarfs.
Ég vil biðja ykkur um að lesa hann yfir og ekki hika við að hafa samband ef þið hafið einhverjar spurningar.
Frekari upplýsingar er svo að finna í foreldrahandbók Skólasels, sem þið getið sótt og/eða skoðað með því að smella hér: http://bungubrekka.hveragerdi.is/wp-content/uploads/2018/08/Foreldrahandb%C3%B3k_18-19.pdf
(ATH – foreldrahandbókin er birt með fyrirvara um breytingar)

1. Að hafa samband.
Í vetur verður ekki stofnaður Facebook-hópur eins og fyrri ár, einkum vegna nýtilkominnar persónuverndarlöggjafar.
Öll upplýsingagjöf FRÁ Skólaseli mun fara fram í gegnum tölvupóst og á heimasíðu Bungubrekku (http://bungubrekka.hveragerdi.is/). Heimasíðan er enn í smíðum en verður vonandi komin í nothæft stand á allra næstu dögum.
Tilkynningar TIL Skólasels um forföll og veikindi, svo og daglegar upplýsingar um að barn megi t.d. fara fyrr heim, geta komið í tölvupósti (skolasel@hveragerdi.is) eða í síma 483 4095. Athugið að síminn er bara vaktaður á opnunartímatíma Skólasels, þ.e. kl. 12.00-17.00.

2. Hlý föt og nesti
Í Skólaselinu erum við oft úti og því þurfa börnin að geta farið í hlý og veðurheld föt (t.d. regnföt eða kuldagalla). Ef börnin fara ekki þannig búin í skólann er hægt að geyma föt í Skólaselinu. Snagar verða merktir eftir 1-2 vikur, þegar hægja tekur á skráningum. Þá deila tvö börn snaga og hólfi. Pláss fyrir aukaföt er því ekkert gríðarlegt, en við reynum að bæta úr því áður en tekur að kólna að ráði. Við reynum eftir megni að fá börnin til að klæða sig eftir veðri þegar þau fara út, eins og samvinna þeirra leyfir.
Börnin eiga ekki að þurfa að koma með nesti nema á lengri dögum (frídögum grunnskólans). Á venjulegum skóladögum borða þau hádegismat áður en þau koma í Skólasel. Á lengri dögum koma þau með nesti fyrir morgunhressingu, en Skólasel sér um hádegismat og síðdegishressingu.

3. Breytingar á skráningu og æfingatímum
Við reynum að vera mjög sveigjanleg með breytingar á skráningum þar til æfingatímar í íþróttum liggja fyrir í haust. Eftir það þarf að tilkynna allar breytingar á skráningu (s.s. styttri eða lengri vistunartíma) fyrir 20. hvers mánaðar og taka gildi næstu mánaðamót.
Sérstaklega er vakin athygli á þeirri breytingu að ætlast er til þess að foreldrar tilkynni um æfingatíma sinna barna, og allar breytingar sem kunna að verða þar á.

4. Lengri dagar
Í foreldrahandbókinni (sjá hlekk fyrir ofan) er listi yfir þá daga sem Skólaselið er opið 8-17 (frídagar í Grunnskólanum) og þá daga sem Skólaselið er lokað (vetrarfrí og rauðir dagar). Vakin er athygli á að skrá þarf börn sérstaklega á þessa daga, svo hægt sé að undirbúa hæfilega mönnun. Sjá nánar í foreldrahandbók.

5. Starfið fer rólega af stað
Fyrstu 2-3 vikurnar verður starfið í Skólaseli með rólegra móti, á meðan við kynnumst börnunum og klárum að manna allar stöður. Eftir það tekur starfið á sig skipulegri mynd og mun ég deila með ykkur upplýsingum um það þegar að því kemur.

6. Reglurnar
Það er gott fyrir foreldra og aðstandendur að vita af mikilvægustur reglunum sem gilda í Skólaselinu. Þær eru fáar og einfaldar:

• Það á að hlýða starfsfólkinu
• Það á að ganga frá eftir sig (bæði leikföng og nesti)
• Það á ekki að fara með leikföng úr einu herbergi í annað.
• Það á ekki að hlaupa inni.
• Það má ekki vera leiðinlegur við aðra, eða meiða.

Það er gott að ræða þessar reglur við börnin heima fyrir, og eins að hvetja þau til að láta starfsfólk strax vita ef einhver kemur illa fram við þau eða er að meiða.

7. Fylgd
Fram að helgi mun starfsmaður Skólasels labba með börnum úr 1. bekk úr grunnskólanum yfir í Skólasel. Eftir það labba þau sjálf á milli, en starfsmaður hjálpar þeim við gangbrautina yfir Breiðumörk.
Ekki er fylgd í íþróttir eða aðrar tómstundir á Skólaselstíma, fyrir utan að rúta fer með börn á æfingar í Hamarshöllinni. Það þýðir að börn sem eru t.d. í tónlistarskólanum, sundæfingum eða æfingum í íþróttahúsinu við Skólamörk, ganga sjálf á milli. Starfsfólk Skólasels hjálpar þeim að leggja af stað á réttum tíma, og fylgist með að þau skili sér aftur ef það á við.

Ég ætla ekki að hafa þetta lengra að sinni. Á morgun, eða næstu dögum, eigum við von á 80 börnum í Skólasel og af þeim verður tæplega helmingur að byrja sinn fyrsta vetur. Það verður því líf og fjör hjá okkur, og ærið verkefni fyrir höndum hjá bæði starfsfólki og börnum að kynnast.

Bestu kveðjur,
Elín.

Í tengdum fréttum:

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *